Samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis
Samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis er samstarfsvettvangur fyrir þær stjórnarstofnanir í einstökum ríkjum á Norðurlöndum sem fjalla um kennslu í tungumálum, bókmenntum og samfélagsháttum þjóðanna í öðrum löndum, einkum svokallaða sendikennslu. Hér á landi annast Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (Stofa Sigurðar Nordals) málefni íslenskukennslu erlendis og stofustjóri hennar situr í samstarfsnefndinni. Tilgangurinn með starfi nefndarinnar er að auka þekkingu og áhuga á menningu Norðurlanda hjá kennurum í dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku sem starfa erlendis, efla samstarf kennaranna og styrkja norræna samvinnu. Nefndin fær árlega fé af föstum fjárveitingum Norrænu ráðherranefndarinnar. Aðsetur samstarfsnefndarinnar er á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Nefndin veitir kennurum í Norðurlandafræðum erlendis margháttaðar upplýsingar um Norðurlönd og norræna samvinnu og sendir þeim ýmis rit endurgjaldslaust. Samstarfsnefndin heldur einnig ráðstefnur fyrir kennara erlendis um kennslu í Norðurlandamálum, bókmenntum, sögu og samfélagsfræðum. Að jafnaði gengst nefndin fyrir einu slíku þingi árlega. Á ráðstefnunum er m.a. fjallað um stjórnmál og stöðu Norðurlanda gagnvart öðrum ríkjum í Evrópu, málvísindi og kennslufræði tungumála, bókmenntafræði og samtímabókmenntir, þýðingafræði og þýðingar á Norðurlandabókmenntum.
Nefndin hefur einnig gengist fyrir kynningum á Norðurlöndum við háskóla í Japan og Kína. Þá hefur nefndin nokkur undanfarin ár stutt kynningu á Norðurlandafræðum og kennslu í norrænum málum við háskóla í Bandaríkjunum og Kanada.
Styrkir, sem Samstarfsnefndin veitti áður til samstarfsverkefni sem lektorar erlendis gangast sjálfir fyrir, eru nú veittir á vegum Nordplus Sprog. Nefndin hefur þó umsagnarrétt um styrkina. Umsjón með styrkveitingum hefur Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins.